Textar úr Sjúkraþjálfaranum bætast í safn Risamálheildar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar

Félag sjúkraþjálfara gaf leyfi fyrir miðlun texta úr Sjúkraþjálfaranum til Árnastofnunar

15.2.2022

Félag sjúkraþjálfara gaf leyfi fyrir miðlun texta úr Sjúkraþjálfaranum til Árnastofnunar

Unnið er að því hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að bæta textum úr útgefnum bókum og tímaritum í textasafn sem kallað er Risamálheildin. Textasafnið inniheldur að mestu leyti texta fréttamiðla, en einnig t.d. alþingisræður, lög, blogg og dóma. Hægt er að skoða Risamálheildina hérna: www.malheildir.arnastofnun.is. Stór textasöfn eru mikilvægur efniviður fyrir gerð margs kyns máltæknibúnaðar eins og t.d. búnaðar fyrir málfarsleiðbeiningar, þýðingarkerfi, talgreina og talgervla. Þetta verkefni er hluti af máltækniáætlun stjórnvalda fyrir íslensku og  verið er að vinna að því að safna textum frá útgefendum bóka og fræðirita til að hægt sé að bæta þeim í málheildina.

Félag sjúkraþjálfara gaf leyfi fyrir því að notaður yrði texti úr Sjúkraþjálfaranum, fagtímariti  Félags sjúkraþjálfara og hefur miðlað 18 tímaritum frá árunum 2012 - 2021 til Árnastofnunar. Textinn er bútaður niður í smáar einingar í málheildinni og honum fylgja ávallt allar upplýsingar um uppruna hans, svo sem nöfn höfunda, tímarits, útgefanda og fleira sem máli skiptir. Textanum verður bætt  við Málheildina síðar á þessu ári þegar búið er að vinna og greina textann.