TR hefur svarað fyrirspurn Félags sjúkraþjálfara um gerð göngufærniprófa og greiðslur til sjúkraþjálfara

Erindi Félags sjúkraþjálfara til TR hefur verið svarað

11.4.2022

Erindi Félags sjúkraþjálfara til TR hefur verið svarað

Í lok síðasta árs, 2021, sendi Félag sjúkraþjálfara inn erindi til Tryggingastofnunar (TR) með óskum um útskýringum á þeim beiðnum sem borist hafa til sjálfstætt starfandi félagsfólks um gerð göngufærniprófa í tengslum við mat á hreyfihömlun umsækjenda vegna umsókna um uppbætur eða styrki vegna bifreiða (greitt á grundvelli 10gr. laga um félagslega aðstoð nr 99/2007). Einnig var óskað eftir upplýsingum um hver beri kostnað af gerð slíkra prófa.

Félaginu hefur nú borist svar þess efnis að lögum samkvæmt beri TR að óska eftir fullnægjandi upplýsingum um göngufærni einstaklinga og í vafatilvikum hefur stofnunin óskað eftir slíkum göngufærniprófum frá sjúkraþjálfurum. Hinsvegar er TR óheimilt að greiða sjúkraþjálfurum fyrir framkvæmd slíkra prófa. Stofnunin mun hins vegar ræða við Sjúkratryggingar Íslands um forsendur slíkra greiðslna og upplýsa Félag Sjúkraþjálfara um þegar niðurstaða liggur fyrir.

Vert er að upplýsa að verið er að vinna að breytingum á verklagi sem ættu að fækka beiðnum til sjúkraþjálfara þar sem óskað er eftir slíkum gögnum vegna viðkomandi hreyfihömlunarvottorða.

Félag sjúkraþjálfara vill upplýsa félagsfólk um að þeim beri ekki skylda til að framkvæma slík göngufærnimöt né önnur möt sem ekki hefur verið samið um fyrr en gengið hefur verið frá samkomulagi um greiðslur þess efnis, og hvetur félagsmenn til þess að upplýsa félagið ef slíkar beiðnir halda áfram að berast.

Stjórn Félags sjúkraþjálfara
11. apríl 2022