Upplýsingar til sjúkraþjálfara vegna COVID-19 (Kórónaveiru)

Helstu upplýsingar fyrir sjúkraþjálfara

27.2.2020

Embætti Landlæknis heldur úti upplýsingasíðu fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk vegna útbreiðslu COVID-19 (kórónaveiru). Sú síða er uppfærð reglulega og við bendum sjúkraþjálfurum á að fylgjast með þróun mála

Vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar á heimsvísu hefur Embætti Landlæknis haldið úti upplýsingasíðu vegna faraldsins. Inn á henni koma fram allar helstu upplýsingar fyrir skjólstæðinga okkar og fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Við hvetjum öll til að kynna sér innihald þessarar síðu, hún er uppfærð vikulega í takt við nýjustu upplýsingar og þróun mála. Einnig eru haldnir stöðufundir daglega í samhæfingarstöð almannavarna og stöðuskýrslur eru gefnar út eftir þörfum. Í síðustu skýrslu sem gefin var út (þegar þetta er ritað), kemur fram að 38 sýni hafi verið rannsökuð af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sem hafa öll reynst neikvæð fyrir COVID-19.

Hér fyrir neðan kemur samantekt á upplýsingum sem snerta vinnu sjúkraþjálfara með skjólstæðingum og sjúklingum, ásamt tenglum á þessar upplýsingar á heimasíðu Embættis Landlæknis þar sem það á við.

Upplýsingasíðan: https://www.landlaeknir.is/koronaveira/

· Við vekjum sérstaka athygli á að á eftirfarandi síðu má finna helstu upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og viðbragðsaðila, og sérstakar leiðbeiningar hafa verið gefnar út fyrir sjálfstæð fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu: https://www.landlaeknir.is/koronaveira/upplysingar-fyrir-heilbrigdisstarfsfolk/
Við hvetjum alla forsvarsmenn einkarekinna sjúkraþjálfunarstofa til að kynna sér þær leiðbeiningar sérstaklega.

· Grundvallarvarúð gegn sýkingum (grundvallarsmitgát) skal alltaf vera viðhöfð í störfum heilbrigðisstarfsfólks með skjólstæðingum og sjúklingum:
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item39200/Leidbeiningar-til-heilbrigdisstarfsmanna-vegna-COVID-19

· Tryggja skal aðgang heilbrigðisstarfsfólks að vöskum, handlaugum og handsspritti. Einnig er vert að ítreka mikilvægi þess að allir sjúkraþjálfarar, innan stofnana eða á einkareknum stofum, noti handþvott á milli skjólstæðinga og viðhafi þar með grundvallarsmitgát.
Hér má nálgast myndband sem fer yfir grundvallarsmitgát: https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/sykingavarnir-innan-heilbrigdisthjonustu/myndbond-sottvarnir/