Upplýsingar um innleiðingu á nýjum samningi við Sjúkratryggingar

21.8.2024

Félagið hefur undanfarið verið í samtali við Sjúkratryggingar til að tryggja farsæla innleiðingu nýs samnings sem tekur gildi þann 1.október 2024. 

Kæra félagsfólk

Félagið hefur undanfarið verið í samtali við Sjúkratryggingar til að tryggja farsæla innleiðingu nýs samnings sem tekur gildi þann 1.október 2024.

Hluti þessarar innleiðingar er að þjónustuveitendur ljúki því að gera þjónustusamning við Sjúkratryggingar. Viðmiðið var að því væri lokið þann 1.september, og ætti að notast við rafrænt innskráningarform. Félagið hefur síðustu daga þrýst á að Sjúkratryggingar ljúki þeirri vinnu sem allra fyrst að útbúa umrætt form til að innleiðingin verði farsæl og við getum upplýst félagsfólk um stöðu mála. Við fengum staðfest nú í morgun að einhver seinkun verður á að umrætt form verði tilbúið og hnikast því dagsetningin sem sjúkraþjálfarar hafa til að ljúka því að gera þjónustusamning aftur til 15.September. Við munum upplýsa alla um leið og formið er tilbúið eða ef einhverjar breytingar verða á. Til einföldunar munu Sjúkratryggingar forskrá hluta upplýsingina og biðjum við ykkur að yfirfara að forsendur séu réttar þegar þar að kemur.

Samhliða eru Sjúkratryggingar að útbúa lausn svo sjúkraþjálfarar geti séð með rafrænum hætti vinnumagn síðustu 12 mánaða, með yfirfærslu yfir á nýjan samning. Við munum einnig upplýsa um leið og við fáum staðfestingu að þetta sé komið í virkni hjá Sjúkratryggingum.

Við viljum einnig deila með ykkur forskrift af gæðavísum frá ER-WPT frá 2018 (Evrópudeild heimssambands sjúkraþjálfara) sem hægt verður að notast við í komandi vinnu (Microsoft Word - Adopted - Quality Assurance Standards of Physiotherapy Practice and Delivery.doc (erwcpt.eu)). Hver og einn aðili þarf að meta og aðlaga að sinni starfsemi og áherslum og er ekki um tæmandi eða fullbúið skjal að ræða, heldur til að styðja við og auðvelda hluta vinnunar.

Samhliða innleiðingu þá hefur samstarfsnefnd samningsins verið skipuð. Samstarfsnefnd sinnir veigamiklu hlutverki líkt og áður við þróun, þjónustu og úrlausn vafamála. Fyrir hönd Félags sjúkraþjálfara sitja þau Auður Ólafsdóttir og Halldór Víglundsson. Nefndin mun starfa í nánu samstarfi með félaginu að komandi skrefum og þökkum við þeim fyrir að taka að sér komandi verkefni, okkur til hagsbóta. Nánar má sjá útlistun á samstarfssamningi á bls. 15 á meðfylgjandi vefslóð : - Samningur-sjukrathjalfara-2024-lokaskjal-FS-.pdf (sjukrathjalfun.is)

Við biðjum ykkur að fylgjast vel með upplýsingapóstum frá félaginu á allra næstu dögum og vikum, ef koma þarf tilteknum upplýsingum til félagsfólks í tengslum við innleiðingu samningsins.