Yfirlýsing Félags sjúkraþjálfara vegna tilkynningar heilbrigðisráðuneytisins um afnám tilvísanaskyldu í sjúkraþjálfun

21.10.2025

21.10.2025

Við teljum að sú útfærsla sem tilkynnt var um í fjölmiðlum í gær sé ekki með þeim hætti að hún nái þeim markmiðum sem stefnt hefur verið að í þessari mikilvægu vinnu.

Félag sjúkraþjálfara fagnar þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að afnema tilvísanaskyldu fyrir þjónustu sjúkraþjálfara, enda hefur sú útfærsla sætt allnokkurri gagnrýni frá bæði sjúkraþjálfurum og læknum á síðastliðnum árum.

Félag sjúkraþjálfara, fulltrúar Sjúkratrygginga og heilbrigðisráðuneytisins hafa unnið að því um nokkurt skeið að útbúa tillögur sem myndu leiða til minni sóunar, skapa skilvirka ferla og bæta umgjörð þessara mála fyrir þjónustuveitendur sem og almenna notendur þjónustunnar.

Við teljum að sú útfærsla sem tilkynnt var um í fjölmiðlum í gær (20.10.2025), sé ekki með þeim hætti að hún nái þeim markmiðum sem stefnt hefur verið að í þessari mikilvægu vinnu. Tillagan felur í sér að sjúkraþjálfarar muni þurfa að útbúa og senda umsókn um framhaldsmeðferð ef einstaklingar þurfa meðferð umfram 6 meðferðarskipti. Felur þessi breyting í sér verulega tilfærslu á verkum frá læknum og Sjúkratryggingum til sjúkraþjálfara. Fleiri stöðugildi sjúkraþjálfara munu því fara í gerð beiðna um framhaldsmeðferðir til sjálfvirkrar afgreiðslu auk kostnaðar því tengdu fyrir Sjúkratryggingar. Telur félagið að mikil tækifæri hafi legið í því að minnka sóun og að tími heilbrigðisstarfsfólks væri nýttur með sem bestum hætti í beinni þjónustu við skjólstæðinga.

Mikilvægt er einnig að leiðrétta þær rangfærslur sem settar eru fram í fréttatilkynningu ráðherra enda gefa þær villandi mynd af þróun og kostnaði þeirrar þjónustu sem um ræðir. Þar er sagt að kostnaður stefni í að verða 2,5 milljarðar umfram fjárheimildir. Miðað við uppgefnar forsendur sem fulltrúum félagsins hafa verið veittar af greiningardeild Sjúkratrygginga má ætla að notkun umfram áætlanir nemi um 7,5%. Af þeirri þjónustuaukningu er ólíklegt að kostnaður hins opinbera verði meiri en 700 miljónir umfram áætlanir.

Félag sjúkraþjálfara hefur ítrekað bent á að áætluð þörf fyrir þjónustuna sé vanmetin, enda séu áhrif af 5 ára samningaleysi nokkur, sem leiddi til hærri kostnaðar almennings og skerts aðgengis að þjónustunni. Auk þess sem áætlunin taki ekki nægilegt tillit til magnaukningar og aldurssamsetningar þjóðarinnar. Virðist sem þessar ábendingar hafi verið réttar og að búast hafi mátt við aukinni þjónustuþörf þegar aðgengi að þjónustunni var loks bætt með gerð samninga. Það er mat Félags sjúkraþjálfara að engin merki séu um óeðlilega notkun á nýgerðum samningi og virðist sem hann hafi jákvæð áhrif á þróun þjónustunnar eins og stefnt var að. Miðað við fyrstu 8 mánuði ársins 2025 borið saman við 2024 hefur komum fjölgað um 2.329 eða um 0,4% á meðan komum pr. einstakling hefur fækkað um tæp 2%. Fjöldi þeirra sem njóta þjónustunnar hefur því vaxið um 2,3%. Er þetta í samræmi við væntingar og til marks um jákvæða þróun í notkun þar sem fleiri komast að en meðferðarskiptafjöldi hvers og eins lækkar.

Í fréttatilkynningu ráðherra er vísað til þess að meðal meðferðarskiptafjöldi einstaklinga hafi að jafnaði aukist síðustu ár. Staðreyndin er sú að meðal meðferðarskiptafjöldi hefur farið minnkandi á síðastliðnum árum en hann fór hæst upp í um 16 skipti árið 2021 í miðjum Covid faraldrinum, og má ætla að sá hópur sem hafi sótt þjónustu á þeim tíma hafi verið þeir sem veikastir voru og því verið í mikilli þörf fyrir þjónustuna. Einnig þarf að horfa til þess að sjúkraþjálfun var sú þjónusta sem var opin meðan á faraldrinum stóð á sama tíma og önnur bjargráð voru ekki aðgengileg. Þá er mikilvægt að geta þess að meðal meðferðarskiptafjöldi er mis mikill eftir réttindastöðu einstaklinga, t.a.m. meðal örorkulífeyrisþega, ellilífeyrisþega, almennra og barna.

Félagið hefur stutt stjórnvöld í þeirri vegferð að skapa öflugt umhverfi fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu og munu áfram vera opið fyrir virku samstarfi um slíkar útfærslur. Við höfum hvatt til styrkingar á faglegri gagnaöflun til eflingar fyrir skipulag og veitingu þjónustunnar.

Í ljósi misvísandi upplýsinga sem fram komu í fréttatilkynningu heilbrigðisráðuneytisins teljum við mikilvægt að almenningur sé upplýstur um sjónarmið félagsins og teljum að stjórnvöld hefðu átt að ljúka útfærslu áætlunar sinnar í samstarfi við Félag sjúkraþjálfara. Slíkt hefði undirstrikað mikilvægi vinnunnar og leitt til farsællar niðurstöðu.