Yfirlýsing frá Félagi sjúkraþjálfara

24.1.2023

Vegna stöðu sjúkraþjálfunar á Landspítala

Fundraising-Donations-Crisis-Response-Yard-Sign-in-Light-Green-Dark-Green-Soft-Minimalist-Style-6-

Stjórn Félags sjúkraþjálfara lýsir yfir áhyggjum af stöðu sjúkraþjálfunar á Landspítala vegna mönnunarvanda, álags, starfsaðstöðu og framtíðarsýnar spítalans.

Áherslur núverandi heilbrigðisráðherra um að leggja ríkari áherslu á endurhæfingu og forvarnir eru bæði skynsamlegar og nauðsynlegar. Til að ná þeim markmiðum þarf að tryggja að sérfræðiþekking á sviði endurhæfingar sé fyrir hendi sem og þjónusta og mönnun á öllum stigum heilbrigðisþjónustu.

Þegar töluleg gögn eru skoðuð kemur í ljós að stöðugildum sjúkraþjálfara á Landspítala hefur fækkað síðastliðin ár. Samhliða því hefur endurhæfingarþjónusta dregist saman. Þannig hefur stöðugildum sjúkraþjálfara fækkað um 13,6% á árunum 2017 – 2022. Þetta hefur haft veruleg áhrif á möguleika sjúkraþjálfara til að svara þörf og eftirspurn og veita fullnægjandi þjónustu.

Undanfarna mánuði hafa sjúkraþjálfarar á Landspítalanum ekki getað sinnt öllum þeim sjúklingum sem metið hefur verið að þurfi á sjúkraþjálfun að halda. Vegna manneklu hefur því aðeins verið hægt halda uppi fullri þjónustu í 23% tilfella (daga) í Fossvogi og 0% tilfella (daga) á Hringbraut. Þetta getur haft þau áhrif að fjöldi legudaga aukist. Þá eru einnig auknar líkur á endurinnlögnum með tilheyrandi kostnaði. Hér má því einnig nefna áhrif á fráflæðisvanda spítalans.

Samhliða þessari þróun og auknu álagi er áhyggjuefni að mikil aukning hefur orðið á veikindafjarvistum sjúkraþjálfara, eða sem nemur 31% ef borin eru saman árin 2017 og 2022. Hækkunin væri umtalsvert meiri ef COVID- 19 árin væru borin saman við 2022. Hefur þetta haft veruleg áhrif á raunmönnun.

Mönnun sjúkraþjálfara á Landspítala hefur bein áhrif á möguleika spítalans til að sinna hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús sem sinnir klínískri kennslu fyrir nema í sjúkraþjálfun. Því er nú komin upp sú staða að raunveruleg hætta er á að ekki verði mögulegt að taka inn alla þá sem óska eftir að komast í meistaranám til starfsréttinda sjúkraþjálfara. Það er alvarlegt þegar raunin er að það þyrfti að fjölga þeim sem fara í námið. Slík staða hefði bein neikvæð áhrif á nýliðun stéttarinnar. Þá myndu færri ráða sig á Landspítala eftir útskrift.

 Tryggja þarf æskilega aðstöðu fyrir endurhæfingarþjónustu á Landspítala. Nú er staðan hins vegar sú að framtíðarstaðsetning þjónustu sjúkraþjálfunar við Hringbraut og nýjan Landspítala er í verulegri óvissu. Það rými sem upprunalega var ætlað þjónustunni verður samkvæmt nýjustu upplýsingum ekki í boði fyrir starfsemi sjúkraþjálfunar. Fyrirhugaðar eru breytingar á aðstöðu sjúkraþjálfara í Fossvogi sem að öllum líkindum mun hafa veruleg áhrif á möguleika til að sinna þeim allra veikustu sem þurfa mikinn stuðning og góða aðstöðu, til að mynda lyftibúnað og aðstoðarfólk. Nú þegar hefur verið þrengt að aðstöðu sjúkraþjálfunar í Fossvogi og þar hafa komið upp tilvik þar sem ekki var mögulegt að veita sérhæfða sjúkraþjálfun vegna aðstöðuleysis.

Landspítali gegnir lykilhlutverki í endurhæfingu á Íslandi og klínískri menntun sjúkraþjálfara.

Því er mikilvægt að huga að aðgerðum til að gera spítalann að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir sjúkraþjálfara hvað varðar starfsumhverfi og launasetningu. Samhliða því þarf að leita leiða til að fjölga útskrifuðum sjúkraþjálfurum til að mæta eftirspurn nú og til framtíðar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnlaugur Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, gunnlaugur@bhm.is