Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar segja sig af samningi við Sjúkratryggingar Íslands

Frá og með 12. nóvember nk munu sjúkraþjálfarar ekki starfa á samningi við SÍ

7.11.2019

Frá og með 12. nóvember nk munu sjúkraþjálfarar ekki starfa á samningi við SÍ

Félagsfundur sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, haldinn þann 5. nóvember 2019, samþykkti ályktun um að sjúkraþjálfarar starfi ekki eftir útrunnum rammasamningi um sjúkraþjálfun frá og með þriðjudeginum 12. nóvember 2019.

Rammasamningur sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), rann úr þann 31. janúar sl. en hefur verið framlengdur einhliða af S.Í. án verðlagsleiðréttinga. Í hverjum mánuði sem líður tapa sjúkraþjálfarar stórum fjárhæðum og litlar vonir eru um að það fáist bætt. SÍ hafa auglýst útboð á sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu án nokkurs samráðs við sjúkraþjálfara sem veitendur þjónustunnar. Eftir mikla gagnrýni frá Félagi sjúkraþjálfara ákváðu S.Í. að fresta útboðinu til 15. janúar en því miður er ekki að sjá að verið sé að vinna að nauðsynlegum úrbótum á skilyrðum útboðsins.

Staðan er óásættanleg. Útboð það, sem SÍ hefur boðað, telja sjúkraþjálfarar skaðlegt fyrir sjúkraþjálfun í landinu. Einnig telja þeir það vinna gegn hagsmunum notenda sjúkraþjálfunar og fagþróun sjúkraþjálfunar í landinu til lengri tíma litið. Félag sjúkraþjálfara hvetur SÍ að fara aðrar færar leiðir til að tryggja örugga og hagkvæma þjónustu við skjólstæðinga sjúkraþjálfara. Endurskoða verður kröfur til þjónustunnar, gæðamat og fjárhæðir.

  • Fjármagn sem ætlað er til þjónustunnar dugar ekki til að viðhalda núverandi þjónustustigi við skjólstæðinga.
  • Gæði þjónustunnar eru ekki metin umfram grunnkröfur.
  • Skert framboð á þjónustu mun leiða til þess að biðlistar lengjast. Afleiðingin verður sú að margir munu búa lengur við skerta getu og hæfni með þeim kostnaði sem því fylgir fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélagið allt.
  • Menntun er ekki metin til launa. Ekkert álag er reiknað vegna framhaldsmenntunar.
  • Óvíst er hvort svigrúm gefst til að sinna kennslu og þjálfun.
  • Þjónusta sem rekin er á öldrunarheimilum verður í uppnámi.
  • Rekstrarkostnaður sjálfstæðra sjúkraþjálfunarstofa eykst verulega.

Gildandi lög um opinber innkaup eru augljóslega meingölluð og bera keim af því að lögin eru fyrst og fremst miðuð við vörur, framkvæmdir og almenna þjónustu en ekki viðkvæma og persónulega þjónustu við fólk, eins og heilbrigðisþjónusta er. Lagafrumvarpið, byggt á EES-tilskipun, var samið í fjármálaráðuneytinu og fór til umfjöllunar í fjárlaganefnd og umsagnar hjá Ríkiskaupum, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og sveitarfélögum, en það var ekki sent velferðarnefnd Alþings, Sjúkratryggingum Íslands, heilbrigðisstofnunum, fagstéttum heilbrigðisstarfsmanna né nokkrum þeim aðilum sem sinna heilbrigðisþjónustu.

Við þessar aðstæður sjá sjúkraþjálfarar sér ekki annað fært en að stíga til hliðar og hætta að starfa eftir útrunnum rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands um óákveðinn tíma. Félag sjúkraþjálfara skorar á stjórnvöld að endurskoða lögin í þessu ljósi og skýra betur hvaða stefnu á að fylgja til framtíðar í mikilvægri þjónustu við skjólstæðinga sjúkraþjálfara. Þrátt fyrir þessa stöðu eru sjúkraþjálfarar tilbúnir til að vera áfram í rafrænum samskiptum við SÍ er varðar lögbundnar endurgreiðslur til sjúkratryggðra, þeim til hagræðis.

Ályktun félagsfundar sjálfstætt starfandi, dags 5. nóv 2019 

Samninganefnd sjálfsætt starfandi sjúkraþjálfara