Aukin greiðsluþátttaka ríkisins og þar með bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara, dró úr nýgengi á örorku vegna stoðkerfissjúkdóma

Sjúkraþjálfun er þjóðhagslega hagkvæm

22.9.2023

Sjúkraþjálfun er þjóðhagslega hagkvæm

Félag sjúkraþjálfara hefur gefið út skýrslu sem greinir þróun á nýgengi örorku og endurhæfingarlífeyri, sérstaklega er horft til þeirra breytinga sem orðið hafa frá því að nýtt greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga tók gildi árið 2017.

Niðurstöður skýrslunar sýna með skýrum hætti að bætt aðgengi að sjúkraþjálfun með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins dró úr nýgengi á örorku vegna stoðkerfissjúkdóma, mestar voru breytingarnar hjá einstaklingum sem voru eldri en 50 ára.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi bætti aðgengi einstaklinga að þjónustunni þar sem árleg meðalútgjöld einstaklinga lækkuðu verulega. Má ætla að þessi breyting hafi haft mest áhrif á aðgengi fyrir þá sem veikast standa og þurftu að neita sér um þjónustuna áður fyrr.

Þessar niðurstöður benda sterklega til þess að gott aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara sé hagkvæm ráðstöfun opinberra fjármuna. Eru þetta mikilvæg gögn inn í áframhaldandi samtal um áherslur í þjónustu heilbrigðiskerfisins þar sem sérfræðiþekking ólíkra fagstétta sé nýtt til bæta árangur.

Skýrsluna má nálgast hér í heild sinni:

Bætt aðgengi - betri horfur